HSorka2013.jpg

Ársskýrsla HS Orku 2014

Reksturinn gekk vel

Framleiðsla HS Orku gekk vel á árinu 2014.  Heildar raforkuvinnsla var 1.338 GWh sem var um 3,6% undir áætlun ársins og um 1% undir framleiðslu ársins 2013.  Raforkuvinnsla fyrirtækisins hefur verið stöðug undanfarin ár, sem ber gæðum orkuveranna og færni þeirra starfsmanna sem þau reka gott vitni, en áreiðanleiki orkuframleiðslunnar er mikill.  

Undanfarin ár hefur HS Orka aukið raforkusölu á smásölumarkaði með góðum árangri, en í lok árs 2011 rann út samningur um sölu á 35 MW til Norðuráls í Helguvík, en sá samningur var til 5 ára.  Þessi orka er í dag seld á smásölumarkaði.

Rekstrartekjur félagsins á árinu voru 7,48 milljarðar króna, samanborið við 7,03 milljarða króna árið 2013.  Aukningin er 6,4% á milli ára.  Tekjur af raforkusölu voru 73,0% af tekjum félagsins árið 2014.  

EBITDA 2014 

2.74 ma.kr.

EBITDA ársins er 2,74 milljarðar króna samanborið við 2,60 milljarða króna árið 2013.  Nemur hækkunin milli ára 5,2%.   Helsta skýring á hækkun milli ára er aukning tekna á smásölumarkaði raforku.

Breytt samstarf HS Orku og HS Veitna

Um nýliðin áramót var gerð umfangsmikil breyting á starfsemi HS Orku. Rúmlega 80 starfsmenn, sem sinnt höfðu verkefnum fyrir HS Veitur skv. þjónustusamningi, færðust yfir til HS Veitna. Þjónustusamningur milli félaganna hefur því tekið verulegum breytingum.  Frá uppskiptingu Hitaveitu Suðurnesja í HS Orku og HS Veitur árið 2008, önnuðust starfsmenn HS Orku rekstur á HS Veitum.  Nú nýta félögin ákveðna samlegð í stoðþjónustu, en þjónustuviðskipti þessi eru nú í mun minna mæli en áður var.

Af öðrum viðskiptum við HS Veitur ber hæst framleiðsla og heildsala á heitu vatni inn á dreifikerfi HS Veitna.  Nokkur aukning hefur orðið á heitavatnsnotkun á undanförnum árum og nú eru á lokastigi framkvæmdir við verulega aukningu heitavatnsframleiðslunnar í Svartsengi til að anna framtíðarþörf.

Gerðardóms beðið

Samningur HS Orku við Norðurál Helguvík vegna raforkusölu til álvers er sem fyrr stærsta verkefni félagsins er varðar aukna orkuvinnslu- og sölu.  Viðræður um samninginn hafa staðið yfir í langan tíma og ekki hefur tekist að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir báða aðila. HS Orka vísaði málinu til úrskurðar gerðardóms á árinu.  Niðurstöðu málsins er að vænta á árinu 2016.

   

Ásgeir Margeirsson forstjóri

Aukin orkuvinnsla á Reykjanesi

HS Orka hefur eftir sem áður unnið að aukinni orkuvinnslu í jarðvarmaverkefnum á Reykjanesi; í Eldvörpum og í Krýsuvík. Verkefni þessi, sem eru mis langt á veg komin, eru afar tímafrek í undirbúningi og hefur megin vinnan verið á sviði auðlindasamninga, leyfisveitinga, grunnrannsókna og frumhönnunar.  Á liðnu hausti var undirritaður verksamningur við Jarðboranir hf. um borun á þremur háhitaholum.  Framkvæmdir við fyrstu holuna, RN-34 á Reykjanesi, hófust í desember á liðnu ári.  Síðar á árinu 2015 er áformað að bora tvær holur í Svartsengi.

Samningur HS Orku og Vesturverks

Í desember á liðnu ári var undirritaður samningur um aðkomu HS Orku að Vesturverki ehf. á Ísafirði, en félagið vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum.  Hvalárvirkjun er áformuð allt að 55 MW og er í nýtingarflokki rammaáætlunar.

HS Orka er ennfremur með smærri orkuvinnsluverkefni til skoðunar og í undirbúningi, en ákvarðanir um hvort í þau verður ráðist verða teknar síðar.

Á meðan ekki hefur tekist að ljúka samningum vegna álvers í Helguvík eru möguleikar HS Orku á stærri sölusamningum við aðra aðila afar takmarkaðir.  Á árinu 2013 var gerður samningur við Advania um sölu á raforku til gagnavers á Fitjum.


Fjárfestingar

Fjárfestingar 2014

1,24 ma.kr.

Fjárfestingar á árinu 2014 námu alls 1,24 milljörðum.  Stærstu fjárfestingarverkefnin voru aukin framleiðslugeta á heitu vatni  í Svartsengi, aukning ferskvatnsöflunar og bygging nýrrar dælustöðvar í Svartsengi, undirbúningur sjávarlagnar í Svartsengi, mat á umhverfisáhrifum borframkvæmda í Eldvörpum, niðurdælingarlögn á Reykjanesi og upphaf nýrra borframkvæmda á Reykjanesi.

Eigið fé er 60 prósent

Efnahagsreikningur félagsins hefur styrkst verulega á undanförnum árum og hafa skuldir fyrirtækisins farið hratt lækkandi.  Það er gleðiefni að eiginfjárhlutfall í árslok 2014 er 60%.  Það undirstrikar getu félagsins til frekari fjárfestinga í náinni framtíð.  

HS Orka horfir fram á svipað rekstrarár 2015, en lengri tími mun líða þar til ný orkuvinnsla verður tekin í gagnið, þar sem nokkur ár tekur að þróa hvert verkefni á því sviði.  HS Orka mun eftir sem áður veita mikilvæga þjónustu til uppbyggingar samfélagsins, til smærri og stærri aðila, með sölu á sinni þjónustu.

AvarpStjornarformanns-header.jpg

Ávarp stjórnar­formanns

Stolt af árangrinum

Við erum stolt af árangri okkar á árinu 2014 enda gekk rekstur félagsins vel, sem svo oft áður. Framleiðsla á raforku og heitu vatni var stöðug og rekstrartekjur jukust um 6,4%. Þessi árangur sýnir enn og aftur fram á hve stöðug og áreiðanleg starfsemi okkar er, þrátt fyrir þá margvíslegu erfiðleika sem við höfum þurft að glíma við, svo sem lágt álverð og harða samkeppni á íslenskum raforkumarkaði.

Félagið naut einnig fjárhagslegrar velgengni á árinu 2014. Við styrktum efnahagsreikning þess með því að nota sjóðstreymi félagsins til að greiða niður skuldir og ef svo fer fram sem horfir mun sjóðstreymi til hluthafa okkar aukast til muna frá og með árinu 2017.

220 milljóna króna arðgreiðsla

Framkvæmdir við jarðvarmaverkefni fyrirtækisins á Reykjanesi héldu áfram á árinu. Meðal annars var boruð ný niðurdælingarhola og lögð ný niðurdælingarlögn til að auka stöðugleika á svæðinu.

Þó að HS Orka nýti nú mest af fjármagnsstreymi sínu til að létta greiðslubyrði og eiga möguleika á að auka umsvif var þó hluthöfum greiddar 220 milljónir króna í arð á árinu aðallega vegna arðgreiðslna frá Bláa lóninu, sem HS Orka á 33% hlut í. Bláa lónið hélt áfram að fara fram úr væntingum á árinu 2014, þökk sé sífellt fleiri gestum og góðum rekstri.

Ágreiningur við Norðurál

Líkt og á fyrri árum voru fjölmargar tilraunir gerðar á fyrri hluta ársins til að leysa úr ágreiningnum um orkusölusamning félagsins við Norðurál. Því miður hafa aðilar ekki náð samkomulagi um þær breytingar á lykilskilmálum sem þarf svo hægt sé að uppfylla ákvæði orkusölusamningsins. HS Orka ákvað því að vísa málinu til gerðardóms. Niðurstöðu er að vænta árið 2016.

Ásgeir Margeirsson nýr forstjóri

Stjórnendahópurinn okkar skilaði góðum árangri á árinu, einu sinni sem oftar. Ásgeir Margeirsson tók við sem forstjóri 1. janúar 2014 og stóð fyrir fjölmörgum rekstrarumbótum til þess að auka skilvirkni og árangur til lengri tíma. Þar á meðal var formlegur rekstrar- og stjórnunarlegur aðskilnaður HS Orku og HS Veitna, í samræmi við íslenskar reglugerðir. 

Stolt af hreinni orku

Síðar í ársskýrslunni skýrum við frá þeirri ætlun okkar að fullnýta þær jarðhitaauðlindir sem við höfum yfir að ráða með Auðlindagarðinum okkar. Með honum vonumst við til að geta nýtt auðlindirnar á sem bestan hátt, samfélaginu og umhverfinu til góða. Við erum afar stolt af því geta veitt viðskiptavinum okkar hreina orku, þökk sé náttúrulegum jarðvarma, sérfræðiþekkingu starfsfólks okkar og bolmagni félagsins.

Þakkir til starfsfólks

Ég vil þakka öllu starfsfólki HS Orku, stjórnendum og yfirmönnum fyrir iðjusemi sína og fórnfýsi fyrir hönd fyrirtækisins, oft við erfiðar aðstæður. Ég vil líka þakka hluthöfum HS Orku, Alterra Power Corp. og Jarðvarma, sem hafa unnið vel og vinsamlega saman að málefnum fyrirtækisins á árinu 2014. Ég vona að 2015 verði fyrirtækinu jafnfarsælt. 

InnkaupaOgBirgdamal.jpg

Innkaupa- og birgðadeild

Innkaup, bæði innlend og erlend, voru meiri á árinu 2014 en undanfarin ár eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu. Erlend innkaup hafa aukist árlega frá árinu 2011 en innlend innkaup lítið breyst. Sama gildir um umsvif/afgreiðslur í birgðageymslum. 

Útboð

Á árinu voru auglýst sex útboð vegna vörukaupa og átta verkútboð eða alls fjórtán útboð sem er veruleg aukning frá fyrri árum. Af vörukaupaútboðum má nefna einangruð og óeinangruð stálrör og tengistykki, spjaldloka, dælur og spenna. Þá var boðin út bygging niðurdælingarstöðvar og nýrrar afloftunarsúlu í Svartsengi, lagning kaldavatnsæðar III norðan orkuversins í Svartsengi, niðurdælingaræðar á Reykjanesi, og borun á allt að fimm háhita- og niðurdælingarholum svo það helsta sé nefnt.

  


Innkaup
Erlend innkaup Innlend innkaup Birgðageymslur
Ár Pantanir Fob-verð mkr Aðfl.gjöld mkr Flutn.kostn. mkr Tryggingar mkr Samt. mkr Pantanir Fjöldi afgreiðslna Afgreiðslur, pr.mán.
2009 25 142,4 7,7 7,1 0,5 157,7 200 1.446 121
2010 26 2.579,7 1,5 47,0 7,8 2.636,0 250 1.498 125
2011 14 65,3 1,9 4,1 0,3 71,6 385 2.049 171
2012 30 85,8 3,1 6,1 0,3 95,3 264 1.550 129
2013 38 92,2 5,0 5,3 0,3 102,8 320 1.801 150
2014 43 105,2 1.7 9,9 0,4 117,2 370 1.480 123

Birgðir

Birgðageymslur eru þær sömu og áður, þ.e. í Svartsengi og á Reykjanesi auk leiguhúsnæðis á Ásbrú. Í Svartsengi er einn birgðavörður í fullu starfi. 

Birgðaverðir eru hvorki staðsettir á Reykjanesi né á Ásbrú en birgðaverðir á lager HS Veitna í Reykjanesbæ sjá að mestu um geymslurnar á Reykjanesi og Ásbrú auk birgðavarðarins í Svartsengi og aðstoða hann eftir þörfum og leysa af í fríum.

Virði birgða 

Virði birgða 

438 m. kr.

Virði birgða HS Orku jókst á árinu úr um 433 m.kr. í ársbyrjun í um 438 m.kr. í árslok og skýrist að mestu af innkaupum á efni í verk sem unnið er að og ráðgert er að ljúka á árinu 2015. Á árinu var haldið áfram vinnu við að fara skipulega í gegnum ýmsar óskráðar vörur, skrá þær nothæfu og farga þeim sem dæmdar eru úreltar. Einnig var farið í gegnum skráðar vörur og úreltum fargað. Varahlutir sem keyptir voru með vélunum á Reykjanesi og í orkuveri 6 í Svartsengi voru flokkaðir og skráðir á lager. Bætt var við hillum fyrir þessar nýju vörur og ýmsar vörur fluttar á nýjar hentugri staðsetningar. Stefnt var að því að ljúka þessari vinnu á árinu sem ekki gekk eftir og verður henni fram haldið 2015.

 

Viðhaldsdeild

Viðhaldsdeild

Eins og áður eru starfsmenn viðhaldsdeildar þrír, viðhaldsstjóri og tveir trésmiðir. Starfsmenn deildarinnar sinna viðhaldsverkefnum bæði fyrir HS Orku og HS Veitur og voru verkefni fjölbreytt eins og undanfarin ár.

Breytingar á skrifstofum

Megin verkefnið fyrir HS Orku á árinu var vinna við breytingar á skrifstofum á efri hæð að Brekkustíg 36 og umsjón með því verki. Hæðinni var allri breytt í tveimur áföngum, skrifstofur sameinaðar og vinnustöðvum fjölgað, fundarherbergjum breytt og  fjölgað og gerðar fleiri breytingar. 

Auk starfsmanna viðhaldsdeildar komu ýmsir verktakar að verkinu sem gekk vel þrátt fyrir óhjákvæmilegt rask og ónæði og flutninga á starfsfólki. Byrjað var að undirbúa framkvæmdir um miðjan apríl og var þeim að fullu lokið um mánaðarmót september/október. Einnig voru gerðar nokkrar breytingar á eldhúsi á fyrstu hæð.

Ný aðvörunarskilti

Af öðrum verkefnum má nefna að skipt var um gólf í tengigangi milli orkuvera 1 og 5 í Svartsengi, sett voru upp aðvörunar- og leiðbeiningarskilti í Svartsengi og á Reykjanesi og ýmis viðhaldsvinna unnin í mannvirkjum í Svartsengi, á Reykjanesi og í Reykjanesbæ. Þau verkefni sem starfsmenn deildarinnar anna ekki eru ýmist boðin út eða unnin af iðnaðarmönnum skv. samningsbundnum töxtum. 

Verkstjóri viðhaldsdeildar hefur umsjón með og annast samskipti við slíka verktaka/iðnaðarmenn og hefur eftirlit með vinnu þeirra. Hér hefur verið stiklað á stóru varðandi þau verk sem starfsmenn viðhaldsdeildar hafa unnið að á árinu enda erfitt að gefa tæmandi yfirlit og enginn skortur var á verkefnum enda ætíð lögð mikil áhersla á að húseignir fyrirtækisins séu í sem bestu ástandi.

AvarpStjornarformanns-blue_lagoon.jpg

Upplýsingasvið

Upplýsingakerfi fyrirtækisins eru þjónustuð af Upplýsingasviði HS Veitna. Til upplýsingakerfa telst allur tölvuhugbúnaður, tölvuvélbúnaður, miðlægur búnaður og símabúnaður fyrirtækisins fyrir utan iðntölvustýringar og þess háttar tækjabúnað.

Endurnýjun og uppfærslur

Á árinu var diskastæðu fyrirtækisins skipt út ásamt öðrum venjubundnari endurnýjunum á útstöðvum og smærri tölvubúnaði. Á árinu urðu miklar endurbætur á húsnæði fyrirtækisins sem hafði í för með sér þó nokkrar breytingar á tölvulögnum og tæknibúnaði. Mikil endurnýjun og fjölgun varð á fundarherbergjum á Brekkustig og var tölvubúnaður settur í öll fundarherbergi. 

Nýtt símkerfi

Símkerfi fyrirtækisins var uppfært og tekið var í notkun nýr skipti- og þjónustuborðs hugbúnaður frá Zylink. Þessi hugbúnaður bætir mikið starfsaðstöðu þjónustuhópsins og styður betur við upplýsingagjöf um símaálagið. 

Til stendur á núverandi ári að taka viðbótar kerfishluta í kerfinu í gagnið þar sem hægt verður að vinna úr pósti sem berst á þjónustuborðið með biðraðarfyrirkomulagi við úrvinnslu hans.

Enn stendur yfir skoðun á orkureikningakerfishluta innan núverandi upplýsingakerfis til að koma í staðinn fyrir núverandi kerfishluta sem ekki er unnt að uppfæra hann þar sem framleiðandi hefur hætt þróun á honum. 

Starfsmenn upplýsingasviðs HS Veitna eru þrír ásamt því að einn starfsmaður þjónustufyrirtækis er með fasta starfsaðstöðu innan fyrirtækisins samkvæmt þjónustusamningi við HS Orku.

StjornOgSkipulag.jpg

Stjórn og skipulag

Aðalfundur HS Orku hf. var haldinn 26. mars á aðalskrifstofu fyrirtækisins á Brekkustíg 36 í Reykjanesbæ. Stjórn var öll endurkjörin og var þannig skipuð:

Stjórn HS Orku

Ross Beaty

Formaður

Ross Beaty Magma Energy Sweden A.B.
John Carson

Varaformaður

John Carson Magma Energy Sweden A.B.
Gylfi Árnason

Ritari

Gylfi Árnason Jarðvarmi slhf.
Anna Skúladottir

Meðstjórnandi

Anna Skúladóttir Jarðvarmi slhf
Lynda Freeman

Meðstjórnandi

Lynda Freeman Magma Energy Sweden A.B.

Varamaður í stjórn

Paul Rapp Magma Energy Sweden A.B.

Varamaður í stjórn

Helgi Jóhanesson Jarðvarmi slhf.
Skipting hlutafjár
  Hlutir Hlutfall
Magma Energy Sweden A.B. 5.222.188.911 66.6%
Jarðvarmi slhf. 2.618.935.580 33.3%
AudlindagardurHSOrku.jpg

Auðlinda­garðurinn

Nýta alla auðlindastrauma frá jarðvarmaverum

Auðlindagarðurinn sem byggst hefur upp í grennd við jarðvarmaver HS Orku á Suðurnesjum er einstakur, boðar nýja tíma, nýja hugsun og hvetur til enn frekari þróunar á aukinni og bættri nýtingu á því sem frá jarðvarmaverunum kemur. 

Fyrirtæki Auðlindagarðsins nýta með beinum hætti tvo eða fleiri auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku og verða því af augljósum ástæðum að vera staðsett á Suðurnesjunum. Starfsemi garðsins hefur byggst upp á sameiginlegum hagsmunum, þ.e. affall eins er hráefni fyrir annan, nálægðinni og nánu þverfaglegu samstarfi. 

Með Auðlindagarðinum vill HS Orka vekja fólk til umhugsunar um þær verðmætu auðlindir sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir og því falið að tryggja að endist kynslóð fram af kynslóð.

 

 Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdarstjóri Auðlindagarðs – Orkuverinu Svartsengi.

„Samfélag án úrgangs“

Markmið Auðlindagarðsins er „Samfélag án úrgangs“, að nýta beri alla þá auðlindastrauma sem streyma inn í og frá fyrirtækjum garðsins til fullnustu, á sem ábyrgastan hátt, samfélaginu til framþróunar og heilla. Virkjun jarðhita á Suðurnesjum leggur til hráefni í fjölþætta framleiðslu. Í fjölnýtingunni er fólgið breiddarhagræði, þar sem sama hráefnið er nýtt í framleiðslu margra vörutegunda. Starfsemi innan Auðlindagarðsins einkennist af rannsóknum, þróun og nýsköpun. Hluti af starfsemi Auðlindagarðsins er að fylgjast með og skapa vettvang fyrir vísindi og tækniþróun svo nýta megi betur auðlindastraumana og skapa þannig vettvang fyrir samvinnu fyrirtækja í ólíkum greinum og með ólíkan bakgrunn. Auðlindagarðurinn er öflugt og ört stækkandi frumkvöðlasetur.

500 manns starfa í Auðlindagarðinum

Í Auðlindagarði HS Orku starfa nú rúmlega 500 manns. Sé tekið tillit til samlegðaráhrifa, aðkeyptrar vinnu og almennrar grunnþjónustu, má færa rök fyrir því að Auðlindagarðurinn skapi 1500-2000 störf á atvinnusvæði hans, gert er ráð fyrir að eitt starf í frumvinnslu skapi 2-3 afleidd störf í stoðgreinum. Athyglivert er, að af 500 starfsmönnum Auðlindagarðsins eru einungis 35 starfsmenn í orkuverunum. Afurðir fyrirtækja Auðlindagarðsins eru að stærstum hluta útflutningsafurðir og var heildarframlag þeirra til hagvaxtar árið 2013 metið um 42 miljarðar eða rúmlega 2% af landsframleiðslu. Þannig skilar fullnýting auðlinda á Suðurnesjum sér í margfaldri verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

„Fullnýting auðlinda lýsir einfaldlega heilbrigðri skynsemi“

Albert Albertsson, hugmyndasmiður HS Orku

Auðlindastraumarnir eru ekki fullnýttir

Auðlindastraumar frá starfsemi HS Orku á Suðurnesjum eru enn ekki fullnýttir. Markvisst er unnið að því að fá ný, sérhæfð fyrirtæki í garðinn, sem geta nýtt ónýtta hráefnisstrauma sem í boði eru í Auðlindagarðinum. Fleiri, fjölbreytt og sérhæfð fyrirtæki, sem grundvalla starfsemi sína á rannsóknum og þróun, styrkja Auðlindagarðinn og þá hugsun sem starfssemi hans byggir á. Með aukinni tækni, vinnslunýtni og fjölgun sérhæfðra fyrirtækja mun Auðlindagarður HS Orku vaxa og eflast á næstu árum Suðurnesjum og landinu öllu til hagsbóta.

Það er jafnframt stefna HS Orku að byggja nýja Auðlindagarða samhliða nýtingu jarðhita á öðrum svæðum. Fjölnýting auðlinda styður við ábyrga nýtingu þeirra og stuðlar að sjálfbærri þróun samfélagsins. HS Orka heldur ótrauð áfram að rækta Auðlindagarðinn sinn á skynsaman og ábyrgan hátt, samfélaginu til heilla. 

 
Orkuver.jpg

Orkuver

Rekstur framleiðsludeildar gekk vel á árinu og voru óvæntar uppákomur fáar. Þá var rekstur jarðhitakerfa með svipuðum hætti og áður.

Heildarupptekt

 • Í Svartsengi var heildarupptekt nettó, um 5,59 milljónir tonna sem er  minnkun um 16,6% 
 • Á Reykjanesi var heildarupptekt nettó, um 13,733 milljón tonn sem er minnkun um 0,356%. 

Raforkuframleiðsla

 • Í Svartsengi var raforkuframleiðsla 551,6 GWh sem er aukning um 3,61% á milli ára.
 • Raforkuframleiðsla á Reykjanesi var 786 GWh sem er minnkun um 3,93% milli ára. 
 • Heildar framleiðsla orkuvera SVA-REY minnkaði um 0,934%  milli ára.

Aukning á raforkuframleiðslu í Svartsengi

3,61%

 

Heitavatnsframleiðsla í Svartsengi árið 2014 var um 2,41% minni en  árið 2013. 

Í töflu 2 getur að líta yfirlit yfir framleiðslu hitaveituvatns

Framleiðsla hitaveituvatns
Tonn Meðal-rennsli l/s Orku-innihald GWh Meðalafl
Framleitt hitaveituvatn 2013 12.441.567 395 680,1 77,6 Allt árið 2014
Hámarks mánaðarframleiðsla 1.193.482 446 72,4 97,3 Desember 2014
Hámarks vikuframleiðsla, sala 278.319 460 17,1 101,8 Vika 51 (13. til 20. des.)
Hámarks sólarhringsframleiðsla 40.176 465 2,46 102,6 18. des. 2014
Hámarks klst. dramleiðsla l/s 1.732 481 0,105 105,3 kl 14:00-15:00 18. des. 2014
Hámarks klst. framleiðsla MW 1.710 475 0,106 106,4 kl 00:00-01:00 13. des. 2014

Þess má geta að uppsett framleiðsluafköst eru 465 l/s það náðust því um 103,45% afköst í orkuverum í kuldakastinu 18. des. Engar marktækar breytingar hafa komið fram á efnasamsetningu heitavatnsins sem HS Veitur dreifa um Suðurnes frá heitavatnsgeymum HS Orku.

Kaldavatnsframleiðsla HS Orku til HS Veitna var samtals 6.131.832m3.

15,4 milljónir tonna

Heildarvinnsla úr jarðhitasvæðinu í Svartsengi var um 488 kg/sek að meðaltali eða alls um 15,4 milljónir tonna sem er aukning um 6,9%. 

Niðurdæling affallsvatns í djúpholur SVAH-17 og 24 var um 9,8 milljónir tonn sem eru um 311 kg/sek að meðaltali yfir árið. Niðurdæling jókst um 27,5% á árinu, með tilkomu viðbótar stofnlagnar og nýrrar dælustöðvar.

Nettóupptekt á árinu var því um 5.596 milljónir tonna eða um 177 kg/sek.

Jarðhitavinnsla á Reykjanesi

Nettó upptekt á jarðhita var árið 2014

5,59 m. tonn

Upptekt úr vinnsluholum á Reykjanesi á árinu 2014 var um 16,336 milljón tonn, sem samsvarar árs meðalvinnslu um 518 kg/s  eða 0,086% minna en á síðasta ári.  

Á árinu 2014 var niðurdæling í jarðhitageyminn á Reykjanesi að jafnaði um 82,54 kg/s eða um 2,603 milljón tonn. Nettó upptekt á árinu 2014 er því um  13,733 milljón tonn eða um 436 kg/s 

Niðurdæling jókst um 1,36% frá fyrra ári.

Rekstur og
viðhald virkjana 

Ákveðið var að fresta upptekt á vél 12 í Svartsengi um eitt ár, en upptektin var á viðhaldsáætlun 2014, ástæða frestunar var m.a. að fara í álagsprófun á jarðhitakerfi Reykjaness með því að draga tímabundið úr vinnslu úr vinnsluholum.

Reykjanesvirkjun

Rekstur Reykjanesvirkjunar gekk ágætlega fyrir utan nokkur stutt viðgerðarstopp, aðallega vegna viðgerða á gufuveitukerfum.

Árlegar vélaskoðanir voru á Vél 2 (50MW) 10. - 15. júní og á vél 1 (50MW) 24. -29. júní. Auk reglubundinnar skoðunar var farið í smávægilegar lagfæringar í gufuveitum. 

22. október var vinnsluhola REYH10 tengd kerfi 2 eftir hreinsiborun og viðhald. Dregið var úr niðurdælingu í holu 20 á miðju ári.

Svartsengi

Vél 11 (30MW) var tekin úr rekstri 2. - 6. júní vegna árlegrar vélarskoðunar ásamt öðru tilheyrandi viðhaldi. 

Vél 12 (30MW) var tekin úr rekstri 10. - 17. júní til árlegrar vélaskoðunar, skoðunar á blásaraviftum á kæliturni ásamt smá lagfæringum í gufuveitu OV6. 

Vél 3 (6MW) var tekin úr rekstri 18.-28. maí vegna hefðbundinnar upptektar og hreinsunar.

Árlegt stopp í orkuverum 2 og 3 var 30. september. Þá voru gufuveita og skiljuðstöð teknar úr rekstri í 10 klst. vegna hreinsunar og skoðunar ásamt minniháttar endurbótum.

Gert við Ormat vélar

Á árinu var hafin viðgerð á loftkælum við Ormat vélar 7 og 9 sem fólst í að fóðra eimsvalpípurnar, eins og gert var við vélar 8 og 10 á árinu 2013 með góðum árangri. Ormat vél 4 var ekki í rekstri október 2014 vegna bilunar í stýrivél sem verður uppfærð á árinu 2015. Heitavatnsframleiðu turnar 6,7 og 8 voru teknir í 10 ára viðhaldsskoðun, skipt var um aflofturnar hringi og annar búnaður yfirfarin. Ljóst er eftir skoðun að senn kemur að viðhaldi á innviðum turnana, en það verður mun auðveldara með tilkomu turns 5. 

Ný niðurdælingarstöð

Ný niðurdælingarstöð með tvær dælur, sem dælir fráveituvatni frá varmaframleiðslu var tekin í notkun í september.   Mikil árangur í að hemja yfirborðsvatn náðist með tilkomu dælustöðvarinnar, ásamt því að magnið í niðurdælingasvæði jókst.

Álag á köldustu tímunum

Mikið álag hefur skapast á heitavatnsframleiðsluna á köldustu tímum á undaförnum árum. Á árinu var hafin smíði á nýrri framleiðslueiningu, rás 5 með afkastagetu upp á 120 l/sek sem var komið fyrir á stæði við stöðvarhús orkuvers 2. Áætlað er að  turninn verði tilbúinn í rekstur á vormánuðum 2015.

Á árinu var hafist handa við að auka  flutningsgetu kaldavatnsveitunnar með 1,5 km langri lögn frá dælustöð í Lágum að tengihúsi sem tekin var í notkun 6. nóv. 2014. Stækkun á flutningskerfinu skilaði góðri aukningu á flutningsgetu ásamt orkusparnaði í dælingu.

Raforkukaup og raforkusala

Raforkukaup og raforkusala

Aukin eftirspurn á heildsölumarkaði 

Vaxandi eftirspurn hefur verið eftir raforku á síðasta ári.  Hvort tveggja frá aðilum sem vilja koma nýir á markað eða frá fyrirtækjum í rekstri sem eru að bæta við starfsemi sína.

Aukin heildarraforkusala

4%

Heildarraforkusala HS Orku á síðasta ári jókst um rúm 4% og markaðist nokkuð af framleiðslugetu og stöðu á heildsölumarkaði sem hefur tekið umtalsverðum breytingum á milli ára með aukinni eftirspurn.

Upptekt á báðum 30 MW vélum Svartsengis

Raforkuframleiðsla frá eigin orkuverum í Svartsengi og á Reykjanesi inn á flutnings- og dreifikerfi lækkaði lítillega frá fyrra ári.  Ekki var farið í stórar upptektir á vélum virkjananna. Til stendur að fara í upptekt á báðum 30 MW vélum Svartsengis á árinu 2015 þar sem upptekt var frestað í fyrra og mun það kalla á aukin orkukaup til að mæta framleiðslutapi. 

Raforka keypt af Landsvirkjun

Mest af þeirri raforku sem HS Orka kaupir af öðrum raforkuframleiðendum er samkvæmt langtímasamningum við Landsvirkjun og eigendur minni vatnsaflsvirkjana, en auk þess er nokkuð keypt með skammtímasamningum við aðra framleiðendur. Jukust þessi kaup umtalsvert á árinu vegna aukinnar sölu. 

Ástæða þess að ekki var farið í upptekt á einni af 30 MW vélum Svartsengis var bág vatnsstaða í lónum Landsvirkjunar sem leiddi til erfiðrar stöðu í raforkuframleiðslu á landinu þar sem grípa þurfti til nokkurra skerðinga á orkuafhendingu.

 

 Kristján Baldursson vélfræðingur að störfum í Orkuverinu Reykjanesi

Vatnsaflsvirkjun í skoðun 

Til að mæta aukinni orkuþörf á næstu árum hefur HS Orka verið að skoða nokkra vatnsaflskosti samhliða fyrirhugaðri framleiðsluaukningu frá nýjum jarðgufuvirkjunum og gæti fyrsta vatnsaflsvirkjun fyrirtækisins verið gangsett innan nokkurra ára. Einnig er verið að ganga frá auknum kaupum frá minni virkjunum í einkaeigu.

Raforkusala í heildsölu

Raforkusölu í heildsölu jókst á árinu

25%

Sala á raforku í heildsölu jókst um 25% á árinu og munar þar mest um aukna sölu til Landsnets fyrir töp í flutningskerfi. Sala til Norðuráls var svipuð á milli ára.  Tekjur af raforkusölu í smásölu jukust um 15% á milli ára en tekjur af raforkusölu til stórnotenda lækkaði lítillega. 


Throun.jpg

Þróunar­verkefni

Niðurdælingalögn fyrir Svartsengi

Ný niðurdælingarlögn sem lögð var á árunum 2012 og 2013 var afhent virkjun til rekstrar í upphafi árs. Með tilkomu lagnarinnar var afkastageta niðurdælingar tvöfölduð og rekstraröryggi niðurdælingarveitu stórbætt.

Ný framleiðslurás fyrir heitt vatn var hönnuð af Verkís hf. og boðin út á árinu eftir að framkvæmdaleyfi hafði verið aflað. Hófust framkvæmdir á öðrum ársfjórðungi og standa fram á vor 2015. Annast Ístak hf. smíði og uppsetningu. Aukning afkastagetu á að anna þörf á heitu vatni fram til ársins 2024.

 

Orkuverið í Svartsengi

Vinna við lögn frá Lágum

Vinna við aukningu flutningsgetu ferskvatns frá Lágum hófst fyrri hluta árs og stöðvuðust  framkvæmdir vegna snjóa og frosts á lokamánuðum þess en lögnin hafði þá verið tekin í rekstur. Urð og Grjót hf annast framkvæmdir og mun ljúka frágangi að vori 2015. Framkvæmdin er forsenda fyrir aukinni framleiðslu á heitu vatni fyrir hitaveitu HS Veitna hf. 

Fráveitulögn til sjávar

Áfram var unnið með stjórnsýslu skipulagsmála að framgangi fráveitulagnar. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu hafði verið kærð til Úrskurðarnefndar um skipulags- og auðlindamál í lok árs 2012. Niðurstaða Úrskurðarnefndar skipulags- og auðlindamála var jákvæð og ákvörðun Skipulagsstofnunar stóð óhögguð um að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í fullt mat á umhverfisáhrifum. 

Hönnun Verkís var að mestu lokið. Efnisútboð fór fram síðla sumars og mun SET hf. annast framleiðslu/útvegun pípuefnis. Jarðvinnuútboð fyrir jöfnun yfirborðs fyrir lagnastæði og þjónustuveg fór fram seinni hluta ársins og mun Ístak-Ísland hf annast verkið. 

Samningagerð um leigu á landi ríkisins vegna framkvæmdanna stóðu yfir allt árið. Vinna við deiliskipulag vegna lokahúss var að mestu leyti lokið á árinu. 

 

Sigmundur Bjarki Egilsson vélfræðingur að störfum í Orkuverinu Svartsengi

Rannsóknaboranir í Eldvörpum

Unnið var að mati á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna rannsóknaborana þar sem gert er ráð fyrir borun frá allt að fimm borteigum. Væntingar eru til þess að ekki þurfi að bora frá öllum teigunum til að staðfesta vinnsluhæfi jarðvarmans á svæðinu. Skipulagsstofnun gaf út álit sitt í september og hófst undirbúningur að gerð deiliskipulags fyrir borteiga í kjölfarið þar sem álit stofnunarinnar verður haft til hliðsjónar við útfærslu borteiga, frágang þeirra og hvernig staðið verður að framkvæmdum á svæðinu. 

Undirbúningur fyrir tvö borverk

Undirbúningur hófst seint á árinu fyrir skipulagsgerð vegna gerð borteiga fyrir tvö borverk, annars vegar borun vara- og viðhaldsholu og hins vegar fyrir rannsóknarholu. Eftir samráð við Skipulagsstofnun hófst undirbúningur að gerð matsskyldufyrirspurnar og samhliða því gerð deiliskipulags fyrir borteigana. Báðar framkvæmdir felast í stækkun borteiga sem eru til staðar á Svartsengissvæðinu rétt norðan Þorbjarnarfells. Jarðboranir hf. varð fyrir valinu sem borverktaki eftir tilboðsferli en verkið nær einnig til borunar við Reykjanesvirkjun, borun REY-34.   

Undirbúningur hófst við gerð rannsóknaráætlunar og umsókn um rannsóknarleyfi fyrir svæðið austur af Stóru Sandvík. Viðræður hófust við landeigendur. 

Samningur HS Orku og Vesturverks

Í lok árs var samið við eigendur Vesturverks ehf um aðkomu HS Orku að verkefni fyrirtækisins, undirbúning að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum. Mun HS Orka eignast allt að helmings hluta í Vesturverki með tíð og tíma eftir því sem rannsóknum vindur fram og meiri vissa fæst um hagkvæmni þess að ráðast í virkjunarframkvæmdir.

Samningum við landeigendur um vatnsréttindi lauk á árinu og viðræður um landafnot stóðu yfir í lok þess. Gerð var áætlun um helstu rannsóknir sem ráðast þarf í og nauðsynlegar framkvæmdir metnar. 

Byggingaframkvæmdir við dælustöð fyrir fráveitu orkuversins í Svartsengi hófust á árinu og lauk í lok þess. Með tilkomu dælustöðvar næst betri stjórnun á fráveitustraumum frá framleiðslueiningum virkjunarinnar um leið og afköst fráveitukerfisins eru aukin. Verktaki er H.H. Smíði, Grindavík.

Ný niðurdælingarlögn

Aflað var framkvæmdaleyfis fyrir nýja niðurdælingarlögn að niðurdælingarholu norðvestur af Sýrfelli. Hófust framkvæmdir um mitt sumar eftir útboð en verkinu var skipt upp í marga framkvæmdaþætti, undirstöður, pípur, jarðvinna o.fl. Eru framkvæmdir í fullum gangi. Lögnin er sérstök að því leyti að hönnuð var sérstök útfærsla á gufulögn sem má hylja jarðvegi en hluti lagnarinnar er neðanjarðar. Verkís hf. hannaði lögn en að verkframkvæmdinni koma SET, Framtak, Ellert Skúlason og ÍAV. 

Rammaáætlun

Unnið var að umsókn fyrir virkjunarkosti HS Orku í þriðja áfanga rammaáætlunar. Allir valkostir sem áður höfðu verið til umfjöllunar í áfanga 2 voru endurmetnir og lýst að nýju. Um er að ræða virkjunarsvæði í Krýsuvík, með fjórum undirsvæðum, í Eldvörpum með samtengingu við Svartsengissvæðið og í Stóru Sandvík með hugsanlegri tengingu við svæði Reykjanesvirkjunar.

Framkvæmdir.jpg

Framkvæmdir

Jarðhitagögn í þrívídd

Jarðhitanýting í Svartsengi hefur staðið yfir í ríflega 30 ár og hefur gríðarleg þekking og reynsla safnast saman á þeim tíma. Jarðvarmaverin voru byggð upp í áföngum eftir því sem þekking á jarðhitakerfinu hefur aukist og er gott dæmi um vel heppnaða jarðhitanýtingu. Samhliða áformum um borun í Svartsengi á árinu 2015 var ákveðið að ráðast í að færa jarðhitagögnin inn í þrívíddar ásýnd og stendur sú vinna nú yfir. 

Borað fyrir tveimur háhitaholum

Áformað er að bora tvær háhitaholur í Svartsengi og verða báðar holur staðsettar inná núverandi vinnslusvæði. Fyrri holan er hönnuð sem varahola, verður um 2.000 m djúp og stefnuboruð til suðuausturs. Seinni holan er hönnuð sem djúp rannsóknarhola og verður 2.500 m djúp, stefnuboruð til austurs undir Grindavíkurveg og Sýlingafell. 

Niðurdæling

Niðurdæling í Svartsengi

300 kg/s

Niðurdæling í Svartsengi gengur mjög vel, samtals er um 300 kg/s dælt niður í tvær holur sem staðsettar eru um 3 km suðvestur af vinnslusvæðinu. Aukin niðurdæling hefur í för með sér minnkandi förgun til Bláa lónsins og vel hefur gengið að halda yfirborðsflatamáli lónsins í leyfilegum mörkum.

Umfangsmiklar ferilefnaprófanir

Áfram var mikil áhersla lögð á aukna þekkingu á jarðhitakerfinu á Reykjanesi, m.a. rannsóknir á viðbrögðum kerfisins við niðurdælingu samhliða vinnslu, uppfærslu jarðfræðilíkans, uppfærslu viðnámslíkans sem og forða og reiknilíkans. Umfangsmiklar ferilefnaprófanir fóru fram á Reykjanesi á árinu, þar sem m.a. var staðfest að vökvi, sem dælt er niður í jaðri háhitasvæðisins, ferðast um 16 metra á dag á ríflega 2.000 m dýpi. 

Fylgst með skjálftavirkni

Ísor rekur staðbundið jarðskjálftamælinet, alls sjö stöðvar, fyrir HS Orku á Reykjanesi. Alls mældust á árinu nærri 1000 skjálftar inná jarðhitasvæðinu sjálfu, flestir innan við 2. Á Reykjanesi er auk þess reglubundið fylgst með borholum m.a. hitastigi, þýstingi, orkuinnihaldi, efnainnihaldi, útfellingum, sem og yfirborðsbreytingum, útbreiðslu og jarðsigi. Í september jókst virkni í Gunnuhver og hverinn færðist til í eldri rás sem þar var fyrir. Þetta sýnir vel hve háhitasvæðin geta verið lifandi og síbreytileg.

Skjálftar á jarðhitasvæðinu 

1.000 á ári

Umfangsmiklar prófanir á holu 33

Framkvæmdar voru umfangsmiklar prófanir á holu 33 á Reykjanesi, sem var boruð á seinnihluta árs 2013 og er fyrsta djúpa niðurdælingarholan á Reykjanesi. Holan sem er staðsett við norðanvert Sýrfell er ríflega 2.500 m djúp og stefnuboruð til suðurs. Útreikningar sýna að holan tekur við um 100 kg/sek af niðurdælingarvökva. Í lok ársins var síðan hafin á Reykjanesi borun holu 34 sem er hönnuð sem önnur djúpa niðurdælingarholan á svæðinu. Holan er boruð aðeins um 15 m frá holu 33 og verður um 2.000 m djúp, stefnuboruð norðvesturs.

HS Orka ásamt öðrum orkufyrirtækjum og Jarðborunum hafa þróað með sér nýtt verklag þar sem borvökvi (leðja) og borsvarf er flutt af borsvæðinu og fargað á viðurkenndan máta samkvæmt lögum og reglum. HS Orka hf. hefur nú þegar reynt þetta verklag við borun holu RN 34 á Reykjanesi með ágætum árangri.


Jarðboranir

Bætt nýting jarðhitavökva

Á Reykjanesi hafa staðið yfir rannsóknir og tilraunir að bættri nýtingu jarðhitavökvans, þannig að auka megi framleiðslu án þess að auka upptekt úr jarðhitakerfinu. Fyrstu niðurstöður lofa góðu og er stefnt að útkomu og tillögum á fyrrihluta árs 2015. Tilraunir með loftnám úr borholu hafa nú staðið í rúm tvö ár og er loftið snautt af H2S og það hreint að það uppfyllir staðla fyrir sérstaklega hrein rými eins og skurðstofur og gagnaver. Nú er í undirbúningi að nýta þessa aðferð til að loftræsa tölvurými og aðstöðu starfsmanna í Svartsengi.

 

Viðnámsmælingar hafa staðið yfir í Stóru Sandvík, sem er líklegt jarðhitakerfi norðaustan við jarðhitasvæðið á Reykjanesi. Mæligögnin verða túlkuð í þrívíðu líkani og eru niðurstöður væntanlegar á vormánum 2015 og verða nýttar til ákvarðanatöku um hvort ráðast eigi í frekari rannsóknir á svæðinu.

Rannsóknir - Header

Rannsóknar­verkefni

Rannsóknar- og þróunarverkefni

HS Orka tekur þátt í ýmsum rannsóknar- og þróunarverkefnum. Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) hélt áfram undirbúningi fyrir djúpborun á Reykjanesi og var dýpkun holu RN-15 skoðuð sérstaklega í þeim tilgangi. Viðræður voru við norska olíufyrirtækið Statoil um að ganga aftur til liðs við IDDP. 

Jarðskjálfta­mælar á landi

30 mælar

Jarðskjálfta­mælar á hafsbotni

24 mælar


IMAGE og ESB

HS Orka er aðili að fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni sem styrkt er af 7. rammaáætlun Evrópusambandsins (ESB), og kallast verkefnið IMAGE. Tilgangur þess er að þróa nýjar aðferðir til að rannsaka djúpar rætur jarðhitakerfa og er Reykjanesið eitt af þremur háhitasvæðum sem skoðað er sérstaklega. Þar voru settir niður um 30 nákvæmir jarðskjálftamælar á landi og 24 mælum komið fyrir á hafsbotni umhverfis Reykjanesið. 

Fylgst með jarðskorpuhreyfingum

Jarðskjálftamælar alls

84 mælar

Að viðbættum fyrirliggjandi mælum munu því um 84 skjálftamælar fylgjast með jarðskorpuhreyfingum á vinnslusvæðum HS Orku í rúmlega 1 ár, og verður fróðlegt að sjá niðurstöður þeirra rannsókna. HS Orka tekur auk þess þátt í fleiri rannsóknarverkefnum í samvinnu við innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki og vinnur jafnframt að gerð tveggja ESB-umsókna í Horizon 2020, verkefni sem miða að bættri tækni við boranir og vinnslu háhitasvæða.

 

UmhverfiOgSamfelag.jpg

Umhverfismál

Leiðandi í umhverfismálum 

HS Orka leitast eftir því að vera leiðandi í umhverfismálum. Á undanförum árum hefur viðhorf samfélagsins til umhverfismála verið í þróun sem leiðir að sér jákvætt aðhald í atvinnurekstri.

HS Orka leggur áherslu á að hafa yfirsýn yfir þau áhrif sem fyrirtækið kann að hafa á umhverfið og leitar leiða til að lágmarka þau neikvæðu umhverfisáhrif sem kunna að hljótast af starfsemi þess. Fyrirtækið fylgist með og vaktar alla þýðingarmikla umhverfisþætti tengda starfseminni, s.s. jarðhitaauðlindina, jarðmyndanir, loftgæði, grunnvatn, fjöru og strandsjó. 

Endurnýtanlegar auðlindir

Hagsmunir HS Orku liggja í því að nýta þær endurnýtanlegu auðlindir sem fyrirtækinu hefur verið treyst fyrir á ábyrgan hátt og að umgangast viðkvæma náttúru Reykjanesskagans af virðingu og ábyrgð sem jafnframt kallar á stöðugar umbætur til að stuðla að betri árangri í umhverfisvernd við daglegan rekstur.

Ábyrg nýting

Eitt af markmiðum Auðlindagarðs HS Orku er: Varfærni í umgengni við umhverfi og auðlindir. Í því felst:

 • Ábyrg nýting auðlinda
 • Fullnýting auðlinda
 • Affall eins er hráefni/auðlind fyrir annan
 • Lágmarka rask á yfirborði
 • Lágmarka áhrif á vistkerfið
 • Varðveisla á líffræðilegum fjölbreytileika
 • Ábyrg förgun

Auðlindagarður HS Orku er öflugt verkfæri til að ná skilgreindum markmiðum fyrirtækisins í umhverfismálum. 

Be in the nature not on the nature.“
Albert Albertsson, hugmyndasmiður HS Orku

Starfsmannahald

Starfsmanna­hald

Nokkrar breytingar urðu á starfsmannahaldi á árinu og voru flestar þeirra í þjónustueiningu sem þjónustar HS Veitur á sviði rafmagns- og vatnsdreifingar ásamt viðhaldi og skrifstofu. Alls létu sex starfsmenn af störfum en sjö nýir starfsmenn komu til starfa.

Nýr forstjóri

Nýr forstjóri, Ásgeir Margeirsson, hóf störf hjá HS Orku í upphafi árs en áður hafði hann verið stjórnarformaður fyrirtækisins. Í Svartsengi bættust við þrír nýir starfsmenn, tveir í viðhaldshóp og einn á stjórnbúnaðarsvið, en einn lét af störfum vegna aldurs.  Einn starfsmaður hóf störf á sölusviðinu á Brekkustíg.

   

Petra Lind Einarsdóttir, Mannauðs- og skrifstofustjóri - Aðalstöðvar HS Orku á Brekkustíg

Hafinn var undirbúningur að færslu starfsmanna sem unnið hafa að öllu eða mestu leyti fyrir HS Veitur yfir til HS Veitna. Í framhaldi var gerður þjónustusamningur á milli fyrirtækjanna. HS Veitur kaupa m.a. þjónustu vegna fjármála, starfsmanna-, gæða og öryggismála af HS Orku og HS Orka kaupir m.a. þjónustu á sviði upplýsingatækni, þjónustu, birgðamála og viðhaldi fasteigna.

 

HS Orka starfsmannafjöldi 

53 starfsmenn

Færsla starfsmanna tók formlega gildi um áramótin. Alls fóru 83 starfsmenn yfir til HS Veitna og eru 53 starfsmenn starfandi hjá HS Orku eftir breytingarnar.

Starfsmannafjöldi sameinaðs félags
  2014 2013
  Starfsmenn Stöðugildi Starfsmenn Stöðugildi
Suðurnes - Njarðvík 69   69,0   69   68,8  
Suðurnes - Svartsengi 30   30,0   29   29,0  
Hafnarfjörður 18   18,0   19   19,5  
Vestmannaeyjar 13   12,1   13   11,8  
Selfoss 4 134,0 4,0 133,1 4 134,0 4,0 133,1
Samtals   134,0   133,1   134,0   133,1
Starfsmannafjöldi brotinn niður á svið
  2014 2013
  Starfsmenn Stöðugildi Starfsmenn Stöðugildi
Yfirstjórn 2   2,0   2   2,0  
Sala og markaðsmál 2   2,0   2   2,0  
Orkuver, stjórnun 4   4,0   4   4,0  
Orkuver, viðhald og eftirlit 26   25,0   25   25,0  
Þróunarsvið 1   1,0   1   1,0  
Tæknisvið 5 40,0 5,0 39,0 5 39,0 5,0 39,0
Þjónustusvið dreifingar 49   60,0   61   60,0  
Skrifstofa 45 94,0 33,1 93,1 34 95,0 33,1 93,1
Samtals   134,0   132,1   134,0   132,1
Gaedamal.jpg

Gæðamál

Á árinu 2014 var lögð mikil vinna í uppbyggingu og innleiðingu á gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001. Mesta vinnan hefur farið í uppbyggingu efrihluta kerfisins. Einnig var lögð vinna í ferlagreiningu varðandi mælingar, greiningar og umbætur á gæðastjórnunarkerfinu, þar á meðal ánægju viðskiptavina.

Gæðaráð og gæðamál

Útbúin var úttektaráætlun fyrir innri úttektir sem náði yfir árið 2014. Innri úttektir voru framkvæmdar að mestu í samræmi við áætlunina og hafa gengið mjög vel. Greinilegt er að það námskeið og þjálfun sem úttektarmenn fengu á síðasta ári er að skila sér í vel unnum úttektum. Gæðaráð kom aftur saman eftir hlé og hittist nú aðra hverja viku þar sem innleiðing er rædd sem og önnur gæðamál. Gæðaráð samanstendur af framkvæmdastjórn. Lokið var við vinnu sem hófst á síðasta ári við að skapa vettvang fyrir starfsmenn til þess að skrá inn slys, næstum slys og óæskilegar aðstæður á innraneti fyrirtækisins. Að því loknu var nýtt fyrirkomulag kynnt öllum starfsmönnum.

 

Kristín Birna Ingadóttir Gæðastjóri

Innleiðing ferla

Farið var af stað með vinnu við að útbúa ferliskjöl fyrir helstu þætti starfseminnar, þar á meðal ferli fyrir orkuverin, sölu – og framleiðslustjórnun, verkefnastjórnun og viðskiptaþjónustu. Ferlisskjölin sýna yfirlitsmynd af starfsemi fyrirtækisins á auðskiljanlegan hátt.  

Vottun 2015

ISO 9001

Gæðastjórnun

Að byggja upp og innleiða gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001 er stórt verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins. Við innleiðingu er skuldbinding stjórnenda mjög mikilvæg sem og þátttaka starfsfólks. Ávinningur gæðastjórnunarkerfisins er að koma betur í ljós sem sést í daglegum störfum allra starfsmanna sem leggja sig fram við að gera sífellt betur og tryggja þannig stöðugar umbætur. Gæðamenning innan fyrirtækisins hefur aukist til muna og á eftir að gera enn frekar. Stefnt er að ISO 9001 vottun á árinu 2015.

vidhald_mynd1.jpg

Öryggis- og heilbrigðismál

Unnið var að margvíslegum öryggis- og heilbrigðismálum  (ÖH-málum) á síðasta starfsári. Unnið var eftir öryggisáætlun HS Orku. Öryggisfundir er haldnir mánaðarlega með starfsmönnum auk funda og kynninga þar sem m.a. er farið yfir áhættumat í aðdraganda viðhaldsverkefna. Vinna í lokuðum rýmum er hluti af viðhaldi orkuvera og var námskeið haldið með starfsmönnum þar sem björgun úr slíku rými var æfð.

Reynt að tryggja öryggi starfsmanna

Markvisst var unnið að merkingu vinnusvæða og vinnuvega HS Orku. Unnið er eftir áætlun sem miðar að því að setja hlið á alla aðkomuvegi að orkuverunum og að öðrum vinnusvæðum. Þetta er gert til að tryggja öryggi starfsmanna og til að vara almenning við hugsanlegum hættum á svæðum fyrirtækisins. 

Starfsmönnum er skylt að bera persónumæla sem mæla og vara við ef magn H2S í andrúmslofti fer yfir markgildi. Vel er einnig fylgst með heilsu starfsfólks og eru í boði árlegar læknisskoðanir fyrir starfsmenn orkuvera. 
Öryggisnefnd er starfandi hjá fyrirtækinu og voru haldnir fjórir bókaðir fundir á árinu auk smærri funda.

Nýtt slysa- og atvikaskráningarkerfi

Nýtt slysa- og atvikaskráningarkerfi var tekið í notkun í byrjun árs. Markmið þess er að auðvelda starfsmönnum skráningar og gera ferlið skilvirkara. Starfsmenn geta nú skráð á einfaldan hátt inn í gagnagrunn HS Orku þau slys eða atvik sem verða. Haldin er skrá yfir slys og atvik (nærri slys) sem verða hjá HS Orku. Slys og atvikum er skipt upp í þrjá flokka eftir alvarleika og fjarveru frá vinnustað.

 • Tegund 1= Atvik/slys án fjarveru 
 • Tegund 2= Slys með 1-7 daga fjarveru
 • Tegund 3= Alvarlegt slys með fleiri en 7 daga fjarveru

Engin fjarveruslys

Samtals voru 19 slys/atvik skráð árið 2014 vegna starfsemi HS Orku. Í átta tilvikum voru starfsmenn HS Orku aðilar máls en 11 slys/atvik voru tilkynnt af verktökum sem vinna fyrir fyrirtækið.
Nánari flokkun slysa/atvika starfsmanna HS Orku: 

 • Þrjú fyrstu- hjálpar slys urðu,
 • fjögur atvik voru tilkynnt 
 • einn árekstur varð á vinnusvæði í Svartsengi, þar sem tveir fólks bílar skemmdust við árekstur. 

Engin fjarveruslys urðu hjá hjá HS Orku starfsárið 2014. Til samanburðar urðu 2 fjarveruslys starfsárið 2013 og tíðni vinnutengdra fjarveruslysa það ár var 2,96. Tíðni fjarveruslysa er miðuð við alþjóðlega staðla þar sem er borin er saman tíðni vinnuslysa miðað við 100 ársverk eða 200.000. vinnustundir.
Tíðni vinnutengdra fjarveruslysa hjá HS Orku fyrir árið 2014 eru því 0,00.

 

Fylgst er með slysatíðni verktaka sem vinna á vegum HS Orku en verktökum er skylt að tilkynna slys til viðeigandi aðila. Samtal voru 11 slys/atvik tilkynnt. Eitt fyrstu hjálpar slys var tilkynnt. Sex voru flokkuð sem atvik, eitt atvik var flokkað sem skemmd á búnaði, tveir árekstrar urðu og eitt minniháttar atvik varð þegar neisti hljóp í leifar af brennisteins ryki sem orsakaði reykmyndun. 
Engin fjarveruslys urðu hjá verktökum sem unnu fyrir HS Orku árið 2014.

Heimsoknir.jpg

Heimsóknir

HS Orka leggur áherslu á fræðslu til almennings um jarðhita, hvernig hann er virkjaður og hvernig hann er nýttur. 

Orkuverið jörð

Sýningin Orkuverið jörð er staðsett í orkuverinu á Reykjanesi.  Gestum hefur fjölgað ár frá ári frá því hún var opnuð formlega árið 2008. Orkuverið jörð er gagnvirk sýning sem fjallar um sólkerfið, mismunandi orkunýtingu á jörðinni og hvaða möguleika við höfum á orkunýtingu bæði hér heima á Íslandi sem og annars staðar í heiminum.

Heimsóknir

Fjöldi gesta árið 2014

5.753

Alls fóru starfsmenn í um 100 móttökur og tóku á móti 1510 manns. Í gegnum sýninguna Orkuverið jörð komu 4243 gestir. Alls komu því um 5753 gestir í heimsókn til fyrirtækisins árið 2014.

Gonguferdir.jpg

Gönguferðir

Fögur náttúra

Sjöunda árið í röð stóð HS Orka, í samstarfi við fleiri fyrirtæki á Suðurnesjum, fyrir verkefninu Reykjanes gönguferðir. Alls var boðið upp á 11 gönguferðir um Reykjanesið á tímabilinu júní – ágúst. Gengið var á miðvikudagskvöldum undir leiðsögn Rannveigar Garðarsdóttur leiðsögumanns.

Um er að ræða léttar gönguferðir í bland við erfiðari og lengri gönguferðir í fagurri náttúru Reykjanesskagans. Í hverri göngu sagði leiðsögumaður frá ýmsum fróðleik um nánasta umhverfi.

Góð þátttaka

11 gönguferðir á árinu 2014

746 göngumenn

Í heildina voru það 746 manns sem reimuðu á sig gönguskóna og mættu sumarið 2014. Alls voru 630 manns sem tóku þátt árið áður, en þá voru göngurnar 10 í staðinn fyrir 11 nú. Göngurnar njóta mikilla vinsælda og eru við allra hæfi.

starfsmannafelag-header.jpg

Starfsmanna­félag

Sigrún endurkjörin formaður

Aðalfundur starfsmannafélagsins var haldinn 25. apríl 2014 og var Sigrún Guðmundsdóttir endurkjörin formaður. Aðrir stjórnarmenn eru Ingi Björn Jónsson varaformaður, Sigurður Baldur Magnússon ritari, Matthías Örn Friðriksson gjaldkeri og Skarphéðinn Rúnar Pétursson meðstjórnandi. Varamenn eru Jóhann S. Sigurbergsson og Sólveig Björgvinsdóttir.

Fjölbreytt starfssemi

Árshátíð félagsins var haldin 1.mars á Hótel Natura Reykjavík. Þátttaka var mjög góð og skemmtu gestir sér konunglega yfir skemmtiatriðum kvöldsins sem voru í bland heimatilbúin og aðkeypt. Kvöldið heppnaðist einstaklega vel enda maturinn frábær og veislustjórn Loga Bergmanns Eiðssonar til mikillar fyrirmyndar. 

Bústaðurinn okkar í Húsafelli var nýttur alla daga í sumar. Umgengni var til fyrirmyndar og allir ánægðir með dvölina. En nýtingin á bústaðnum mætti vera betri á veturna enda umhverfið og bústaðurinn ekkert síðri á veturna.

Sumarið var boðið velkomið með fjölskyldudegi 7.júní í Svartsengi. Veðrið var yndislegt og skemmtu allir sér mjög vel. Boðið var uppá mótorhjólarúnt með börnin, Íþróttaálfurinn kom í heimsókn og skemmti börnunum og hoppukastalinn var vinsæll meðal yngstu barnanna. Börnin fengu andlitsmálningu og síðan var rennt niður nokkrum grilluðum pylsum. Virkilega ánægjulegur dagur fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Sumar- og haustferð

Sumarferð/haustferð var farin á Snæfellsnesið í september. Var farið í göngutúr á milli Arnarstapa og Hellna í yndislegu veðri, þaðan haldið á Stykkishólm til að fara í ævintýrasiglingu um Breiðafjörðinn. Þar fengu félagsmenn að smakka ljúffengt ferskt sjáfarfang beint úr sjó. Um kvöldið var veisla á hótel Stykkishólmi, söngur og gleði. Veðrið hefði mátt vera betra daginn eftir. En þá var farið í Bjarnarhöfn til að smakka hákarl og safnið sem þar er skoðað. Næst fór önnur rútan að Erpstöðum hvar smakkaður var alvöru sveitaís en hin rútan fór með mannskapinn í víkingaævintýri að Eiríksstöðum. Allur mannskapurinn hittist síðan í dýrindis kjötsúpu í Munaðarnesi. Það voru þreyttir ferðalangar sem komu heim á sunnudagskvöldinu en allir alsælir með frábæra ferð.

Villibráðarveisla var fyrir starfsfólk í Restaurant Lava Bláa Lóninu þann 1.nóvember. Frábær þátttaka og maturinn var hreint út sagt dásamlegur. Umhverfi og andrúmsloft kvöldsins var stórkostlegt. Virkilega ánægjuleg stund með góðum vinnufélögum.

Viðburðaríkt ár framundan

Stjórn SFHS hlakkar til næsta árs og efast ekki um annað en það verði álíka viðburðaríkt og það liðna. Virkilega gaman að vera í félagi þar sem allir eru virkir þátttakendur í því sem boðið er uppá. Það er alltaf gaman þegar að vel tekst til. Við gætum þetta ekki nema með þátttöku og hjálp frá öllum félagsmönnum.  

FjarmalArsreikningar.jpg

Helstu lykiltölur

Góð afkoma dótturfélaga

Hagnaður af reglulegri starfsemi var að upphæð 679 milljón króna, en árið áður var tap sem nam 355 milljónum króna. Bætt afkoma skýrist að miklu leyti af auknum tekjum og góðri afkomu dótturfélaga.

EBITDA jókst um 135 milljónir króna

Hagnaður 2014

679 m. kr.

EBITDA 2014

2.74 millj.

EBITDA eykst um 135 milljónir á milli ára og er alls um 2.74 ma.kr. 2014 en var 2.603 m.kr. árið 2012. Stafar það af því að hækkun tekna var meiri en sem nam hækkun rekstarkostnaðar.

EBITDA 2010 - 2014

Rekstrartekjur og rekstrarkostnaður

Rekstartekjur fyrirtækisins námu 7.479 milljónum króna á rekstarárinu 2014, samanborið 7.031 milljónir króna árið 2013. Nokkrar ástæður eru fyrir þessari aukningu tekna. Munar þar mest um aukna sölu á smásölumarkaði en tekjur af stórnotendum drógust aðeins saman á móti.
Rekstarkostnaður jókst um 6% eða sem nemur 310 m.kr. milli ára. Orkukaup hafa aukist nokkuð en á móti hefur  flutningskostnaður lækkað lítið eitt. Rekstrarkostnaður orkuvera var einnig lægri heldur en á árinu 2013. Þá hefur skrifstofu- og stjórnunarkostnaður hækkað nokkuð, fyrst og fremst vegna kostnaðar við rekstur dómsmála og breytinga á skipulagi.

Langtímaskuldir lækkuðu

Greiddar voru afborganir af langtímaskuldum að fjárhæð 2.224 milljónum króna, það ásamt hækkunum verðbóta veldur því að langtímalán félagsins hafa lækkað um 2.125 milljónir króna frá árinu 2013. Eiginfjárhlutfall 31. desember 2014 er því mjög sterkt eða 59,7% samanborið við 58,0% í árslok 2013.

Rekstrartekjur á ári 2010 - 2014

Eigið fé á ári 2010 - 2014

Eiginfjárhlutfall á ári 2010 - 2014

Áætlaður hagnaður 1,7 milljarður króna 2015

Áætlun 2015 gerir ráð fyrir nokkurri hækkun bæði tekna og gjalda og að hagnaður verði um 1,7 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að EBITDA verði svipuð og raunin var á árinu 2014. Afborganir lána eru áætlaðar 2.249 milljónir króna. 

Arsreikningar.jpg

Ársreikningur

Ýmsar breytingar voru gerðar á starfssemi HS Orku á árinu. Ein þeirra fólst í því að hætt var að gefa út prentaða ársskýrslu fyrirtækisins eins og tíðkast hefur síðustu ár og hún þess í stað gefin út á netinu. Þetta er gert í takt við tíðarandann en ekki síst til að fylgja eftir stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum samfélaginu til heilla. 

Sjálfan ársreikning félagsins er hægt að nálgast á pdf-sniði hér að neðan.